Glósararnir úr KHÍ

Vormisseri 2008

9.5.2008 15:14:00 / khi

Glósur úr Reynsla og menntun

 

Reynsla og menntun

Hugtakið 'Að læra með því að framkvæma' (Learning by doing) er kennt við John Dewey þó hvergi komi það fram í þessari bók nema í inngangi þýðanda. Titill bókarinnar 'Learning by Experience' er náskyldur þessu hugtaki en Dewey freistaði þess að setja fram kenningu um reynsluna sem kennarar og aðrir skólamenn gætu haft gagn af sem mælikvarða er leiddi til menntunar og sagði að námsferlið ætti að vera 'menntandi reynsla'.

Í Inngangi þýðanda kemur fram að Dewey hafi sagt að skólinn skyldi vera lifandi samfélag í smækkaðri mynd þar sem barnið væri virkur þátttakandi og áhersla hans á samfélag og samvinnu gengur eins og rauður þráður í gegnum allt sem hann skrifar um skóla- og menntamál. Ennfremur segir Dewey að barnið sé í vissum skilningi aðalatriðið í skólastarfinu, ekki sem einangraður einstaklingur heldur sem hluti af félagshóp (ekki bekk) þar sem nemendur vinna sameiginleg verkefni undir handleiðslu (ekki stjórn) kennara.

Í upphafi bókarinnar rifjar Dewey upp heimspeki menntunar og segir að mönnum hætti til að setja skoðanir sínar fram sem annaðhvort - eða og viðurkenna enga möguleika þar á milli. Hann segir "að saga kennslu- og menntunarfræða einkennist af tveimur andstæðum hugmyndum, annars vegar þeirri að menntun sé þroski sem kemur innan frá og hins vegar þeirri að hún sé mótun sem kemur utan frá, að menntunin byggist á meðfæddum hæfileikum eða að hún sé í því fólgin að sigrast á meðfæddum hneigðum og setja í þeirra stað venjur sem mótast við ytri þrýsting". Á dögum Deweys var algengt að þessi andstæða birtist sem djúpstæður ágreiningur milli hefðbundinnar kennslu og framsækins skólastarfs.

Í kaflanum 'Þörfin fyrir kenningu um reynsluna' útskýrir Dewey nánar hvað hann á við með því að segja að óhjákvæmileg tengsl séu á milli náms, menntunar og persónulegrar reynslu. Og til þess að vita hvað reynslustefna merki verði fyrst að skilja hvað reynsla sé.

Dewey segir að það sé ekki nóg að halda því fast fram að reynsla sé nauðsynleg því allt sé komið undir því hvers eðlis reynslan sé. Áhrif reynslu liggi ekki í augum uppi og séu vandi kennarans, það sé í hans verkahring að skipuleggja þær athafnir sem vekja ekki andúð nemandans heldur virkja hann frekar til þátttöku.

Í hefðbundna skólanum var það kennarinn sem hélt uppi aga vegna þess að aginn var í hans höndum í stað þess að búa í sameiginlegu verki sem unnið er í hinum svokölluðu nýju skólum. "Aðaluppspretta félagslegs taumhalds bjó í eðli þeirrar vinnu sem unnin er í sameiginlegu verkefni þar sem hver og einn á þess kost að leggja sitt af mörkum og sem allir finna til ábyrgðar gagnvart".

Dewey leggur mjög mikla áherslu á þá hugmynd að þó námsferlið eigi að byggjast á sameiginlegri vinnu nemenda þar sem allir beri jafna ábyrgð og frelsi þeirra virt þá megi ekki ganga svo langt að útiloka kennarann. Þegar menntun er byggð á menntandi reynslu og félagslegu ferli komi í ljós að kennarinn er stjórnandi hópstarfsins en ekki yfirmaður eða einræðisherra eins og í gamla kerfinu.

Í kaflanum 'Áform og markmið' kemur fram að Dewey telur að skynsamlegasta atriðið í heimspeki framsækna skólans (progressive school) sé sú áhersla sem hann leggi á mikilvægi þess að nemandinn taki þátt í mótun þeirra áforma sem stýra athöfnum hans meðan á náminu stendur. Það sé mesti galli hefðbundna skólans að tryggja ekki virka samvinnu nemandans við uppbyggingu þeirra áforma sem varða nám hans.

Í lok sama kafla ræðir Dewey um að mótun áforma sé flókin vitsmunaleg aðgerð. "Hún feli í sér (1) athugun á kringumstæðum; (2) þekkingu á því sem áður hefur gerst við svipaðar aðstæður, þekkingu sem er aflað sumpart með upprifjun og sumpart með því að leita eftir upplýsingum, ráðleggingum og viðvörunum hjá þeim sem hafa fengið víðtækari reynslu; og (3) mat þar sem borið er saman það sem er athugað og hitt sem er rifjað upp til að sjá hvað það táknar". Síðan fjallar hann um það hvað aðgreinir áform frá hneigðum og löngunum og mikilvægi þess að í uppeldi og kennslu skipti það sköpum að þroska hæfileika til að fresta þeim athöfnum sem vilja tafarlaust umbreyta löngunum í veruleika."

kennsluskipulagi er það ekki lokatakmarkið að langanir og hvatir séu fyrir hendi. Það er tilefni til og krafa um að móta áætlun um starf og vinnubrögð. Slíka áætlun er aðeins hægt að móta með því að kynna sér rækilega skilyrði og afla sér allra upplýsinga sem máli skipta. Hlutverk kennarans er að sjá til þess að þetta tilefni sé hagnýtt."

"Kennarinn gerir sér ljósa grein fyrir hæfileikum, þörfum og fyrri reynslu þeirra sem hann er að kenna og hins vegar leyfir hann að sú uppástunga sem hann sjálfur kemur með þróist upp í áætlun og verkefni með aðstoð frekari tillagna sem einstaklingarnir í hópnum koma með og skipa saman í heild. Áætlunin er með öðrum orðum samstarfsverkefni en ekki fyrirskipun. Tillaga kennarans er ekki mót fyrir framleiðslu steypujárns heldur upphafsatriði sem á að þróa í áætlun sem allir þátttakendur í námsferlinu leggja sitt að mörkum til. Útfærsla tillögunnar á sér stað í gagnkvæmum skoðanaskiptum þar sem kennarinn þiggur en er líka óhræddur við að gefa. Aðalatriðið er að áformið þróist og mótist með sameiginlegu skynsamlegu framlagi".

Hér er um mjög líkt ferli að ræða og í lausnaleitarnámi (Problem Based Learning) að undanskyldu því að kennarinn verður að rata hinn gullna meðalveg á milli þess að gefa góð ráð og þess að leysa verkefnið fyrir nemendur.

Í kaflanum 'Skipulagning námsefnis stig af stigi' bendir Dewey á að vandinn að velja og skipuleggja námsefni sé grundvallaratriði. Ennfremur að ef tiltekin reynsla leiði ekki inn á áður óþekkt svið komi engin vandamál upp, en vandamál örvi hugsunina og að þroski sé kominn undir því að til staðar sé vandi sem sigrast skuli á með því að nota skynsemina.

"Hér er það líka hluti af ábyrgð kennarans að tryggja í jöfnum mæli tvennt: annars vegar að viðfangsefnið þróist út frá þeim reynsluskilyrðum sem fyrir hendi eru hverju sinni og að það sé ekki ofvaxið hæfileikum nemenda; og hins vegar að það sé þess eðlis að það veki hjá nemandanum virka löngun til að fræðast og koma fram með nýjar hugmyndir".

Þó hér sé verið að tala um kennsluaðferðir 'nýja skólans' á dögum Dewey þá gæti hann allt eins verið að tala um tilhögun lausnaleitarnáms fyrir háskólastúdenta þar sem skírskotað væri til fyrri þekkingar þeirra í stað hæfileika hér fyrir ofan.

Lausnaleitarnám [Problem Based Learning]

Lausnaleitarnám (Problem Based Learning) er nám sem byggist á vinnu sem miðar að skilningi og lausn á fyrirfram ákveðnu viðfangsefni.
(Barrows and Tamblyn, 1980 p.2)

Hér verður aðallega fjallað um bókina 'Bringing Problem-Based Learning to Higher Education: Theory and Practice' sem LuAnn Wilkerson við University of California, Los Angeles og Wim H. Gijselaers við University of Limburg, Maastricht, Hollandi ritstýra. Þetta litla hefti er ótrúleg uppspretta fróðleiks um lausnaleitarnám og notkun þess í hinum ýmsu greinum háskólakennslu.

Það var á milli 1960 og 1970 sem forráðamenn læknadeilda fóru í vaxandi mæli að verða þess varir að þeir þyrftu að breyta kennsluaðferðum sínum til að búa væntanlega lækna betur undir þau sérfræðistörf sem biðu þeirra að námi loknu. Gagnrýndar voru þær íhaldssömu aðferðir sem tíðkast höfðu í háskólakennslu sem beindust fyrst og fremst að því að hamra á staðreyndum sem leiddu til utanbókarlærdóms í stað þess að beina kröftum sínum að því að láta nemendur glíma við raunhæf verkefni sem tengdust framtíðarstarfsvettvangi þeirra.

Þessi umræða varð meðal annars kveikjan að því að nýstofnuð læknadeild McMaster's háskóla í Ontario í Kanada skipulagði kennsluna á grundvelli þeirrar aðferðarfræði sem nefnist 'Problem Based Learning' eða lausnaleitarnám. Í því fólst m.a. að stúdentar kynntust strax þeim hefðbundnu vísindalegu aðferðum sem tíðkast við greiningu og meðferð sjúkdóma. Þeir unnu í litlum hópum og fengu raunveruleg vandamál til að glíma við. Hver hópur var með sinn kennara (tutor) sem hafði það hlutverk með höndum að hvetja stúdenta til dáða, útvega þeim viðeigandi upplýsingar, halda aftur af sér með hörð viðbrögð og umfram allt að taka þátt í náminu á jafnréttisgrundvelli.

Aðaferðafræði lausnaleitarnáms McMaster's háskólans byggðist aðallega á tvenns konar ferli: stúdentum var skipt niður í fámenna lokaða hópa sem síðan fengu upplýsingar sem kölluðu á rannsókn sem tengdist meðferð sjúklinga við raunverulegur aðstæður. Með sjúkraskýrslu viðkomandi sjúklinga að leiðarljósi var stúdentum falið að sjúkdómsgreina þá og ákveða síðan læknismeðferð í framhaldi af því.

Það sem skildi McMaster's aðferðafræðina mest að frá fyrri aðferðum var að nú voru fyrirlestrarsalirnir orðnir að umræðuvettvangi þar sem allir tóku virkan þátt í náminu. Kennslustundirnar breyttust frá því að einblínt var á staðreyndir sem kennarar miðluðu í fyrirlestraformi yfir í öflun upplýsinga sem skiptu máli til að leysa úr vanda viðkomandi sjúklinga. Kennarar urðu uppspretta fróðleiks til að leysa vandamál líðandi stundar í stað þess að miðla staðreyndum sem aðeins komu að gagni í prófum en síður eða alls ekki þegar á hólminn var komið.

Á þessum þrjátíu árum sem liðin eru síðan McMaster's háskólinn tók þessa aðferðafræði í gagnið þá hafa læknaháskólar um allan heim tileinkað sér hana og nú síðustu ár hafa margar aðrar sérfræðigreinar bæst í hópinn og áhuginn fer sívaxandi innan háskólanna auk lægri skólastiga.

Af mjög mörgu er að taka í bókinni svo sem úr reynslusögum þeirra sem notað hafa lausnaleitarnám við kennslu en fyrir valinu varð lýsing í stuttu máli á því hvernig lausnaleitarnám er skipulagt frá upphafi til enda í læknanámi (bls. 5-6). Nánari umfjöllun um lausnaleitarnám (PBL) almennt bíður lokaverkefnis þessa námskeiðs.

Skilgreining á lausnaleitarnámi

Þó margar aðferðir hafi verið notaðar við lausnaleitarnám þá reynist upprunalega fyrirmyndin frá MacMaster's yfirleitt best til viðmiðunar - síðan er hægt að breyta út frá henni til að mæta þeim námskröfum sem felast í öðrum fræðigreinum:

Námið er stúdentamiðað. Stúdentar bera ábyrgð á sínu eigin námi undir handleiðslu hjálparkennara (lýst síðar). Það gera þeir með því að afmarka það sem þeir þurfa að kynna sér til að skilja betur eðli vandamálsins svo þeir nái betri tökum á lausn þess. Þeir þurfa að ákveða hvar þeir eiga að nálgast upplýsingar (í bókum, tímaritum, hjá kennurum, á Netinu o.s.frv.).

Námið fer fram í fámennum nemendahópum. Í læknanámi hafa hóparnir yfirleitt verið fimm til átta manna. Í lok hvers námskeiðs er stúdentum raðað upp aftur á tilviljanakenndan hátt (randomly) auk þess fá þeir nýjan hjálparkennara. Með þessari ráðstöfun fá þeir æfingu í að vinna náið og á árangursríkan hátt með margs konar fólki sem er mjög gott vegnesti út í lífið ekki síst fyrir lækna.

Kennarar eru hjálparhellur og leiðbeinendur. Hjá McMaster's voru þessir aðilar kallaðar aðstoðarkennarar (tutors). Oft á tíðum hafði þessi staða neikvæða merkingu. Aðstoðarkennarinn sá ekki um að upplýsa stúdenta né láta þá vita hvort þeir væru á réttri leið. Hann benti þeim ekki heldur á hvað þeir ættu að kynna sér eða lesa enda mátti hann ekki vera sérfræðingar á því sviði sem vandamálið tengdist en þá var talin hætta á að hann yrði of leiðandi. Nú hafa menn aftur á móti komist að raun um að bestu aðstoðarkennararnir eru þeir sem eru sérfræðingar á viðkomandi sviði en auk þess þurfa þeir að vera sérfræðingar í aðferðafræðinni.

Vandmálin móta áherslur og örvun sem felast í náminu. Þegar PBL er notað í tengslum við lyf, sjúklinga eða samfélagsleg heilsuvandamál þá er verkefnið lagt fyrir stúdenta t.d. í formi skýrslu, hermilíkans í tölvu, myndbands eða sjúklingurinn sjálfur mætir á staðinn. Reynt er að hafa allt sem líkast því sem gerist í raunveruleikanum þannig að stúdentar geti tekist á við og leyst málið við raunhæfar aðstæður.

Framsetning vandamáls leggur grunninn að þeirri færni sem verið er að byggja upp í greiningu sjúkdóma. Til að svo megi verða þá þarf að móta lýsingu vandamálsins á sama hátt og gerist í raunveruleikanum þannig að stúdentar séu þeir einu sem yfirheyra og skoða sjúklinginn. Auk þess sjá þeir um að panta rannsóknir á rannsóknarstofum í beinu samhengi við sjúkdómsgreininguna. Stúdentar eiga síðan að fá allar niðurstöður rannsókna jafnóðum og þær berast um leið og þeir vinna að lausn málsins.

Nýrra upplýsinga er aflað með sjálfstýrðu námi. Í beinu framhaldi af ofangreindu ferli er ætlast til þess af stúdentum að þeir læri af þeirri reynslu sem þeir öðlast við að glíma við vandmálin á vettvangi með því að afla sér sjálfir þeirra upplýsinga sem til þarf. Á meðan á þessu sjálfstýrða námi stendur vinna stúdentar saman með því að ræða saman; bera sig saman; fá yfirsýn yfir málið og að lokum meta það sem þeir hafa lært.

Er lausnaleitarnám (PBL) erfiðisins virði?

Athygli vekur að þessi spurning er venjulega borin fram af fólki sem beðið er að athuga hvort það vilji tileinka sér þessa kennsluhætti áður en það hefur kynnt sér málið. Um leið og fólk hefur tekið að sér hlutverk aðstoðarkennara og um leið gefist kostur á að sjá hvað stúdentar geta gert þegar þeir fá leyfi til að læra upp á eigin spýtur, snýst dæmið venjulega við. Kennarar geta séð hvernig stúdentar hugsa, hvaða þekkingu þeir búa yfir og hvernig þeir læra. Þetta gerir kennurum kleift að blanda sér í málið í tíma áður en það verður of flókið. Kennarar fylgjast mjög náið með framvindu mála á jafnréttisgrundvelli sem er mjög ólíkt því að vera með fyrirlestur fyrir stóran hóp óvirkra stúdenta sem stundum hreinlega leiðist. Eina vísbendingin um gagnsemi kennslu af því tagi er óbein og kemur fram í svörum stúdenta við prófspurningum.

Lausnaleitarnám í öðrum greinum en læknisfræði

Undanfarna tvo áratugi hafa margir sérfræðiháskólar í öllum heiminum tekið lausnaleitarnám í þjónustu sína, s.s. í hjúkrunarfræði, lögfræði og verkfræði. Ennfremur hafa framhaldsskólar og barnaskólar allt frá forskólum og upp úr gert það sama. Lausnaleitarnám hefur verið í gangi hjá verkfræðideild McMaster's háskóla næstum jafnlengi og í læknadeild.

Þar sem lausnaleitarnám er tekið upp virðast bæði kennarar og nemendur ánægðir með árangurinn og er þessi námsaðferð jafnvel talin lausn á mörgum vandamálum sem upp hafa komið í menntamálum almennt. - Við núverandi aðstæður leiðist nemendum oft í skóla og þegar þeir hinir sömu loks útskrifast þá eru þeir ekki færir um að leysa þau verkefni sem bíða þeirra á vinnumarkaðinum.

Nýtt líf í læknanámi er yfirskrift mjög góðrar greinar Hannesar Petersen, sérfræðings í háls- nef og eyrnalækningum, í læknablaðinu frá því júní sl. um 'vandamiðað nám eða kennslu' (PBL) eins og hann kallar það þar sem hann rekur aðdraganda þess að læknadeild HÍ stefnir að því að taka þessa aðferðarfræði upp. Lýsing hans á 'vandamiðuðu námi' er eftirfarandi og kemur heim og saman við þá lýsingu sem fram kemur hér fyrir ofan en er að sumu leyti ítarlegri:

"Vandamiðað nám byggir á því að kynna fyrir nemendum, eins snemma í náminu og kostur er, vandamál er tengjast framtíðarstarfsvettvangi þeirra. Nemendurnir fá þjálfun í að leysa úr vandamálum á rökrænan hátt með því að læra að skilgreina vandamálin og tengja þau á rökrænan hátt þekkingu með kenningarsmíði sem síðan er varin eða hrakin með staðreyndum sem leitað er uppi í gagnabönkum svo sem á bókum eða vefnum. Nám af þessu tagi fer fram í litlum hópum þar sem kennarinn er fyrst og fremst leiðbeinandi um aðferðafræðina, mun fremur en lifandi uppsláttarbók á þekkingarvísu. Þar sem vandamiðað nám hefur verið tekið inn í kennslumynstur skóla hefur það gefist vel. Nemendur eru mun meðvitaðri um takmörk þekkingarinnar er liggur að baki þeirrar fræðigreinar er þeir stunda og þær breytingar er verða á þekkingu manna á ýmsum fyrirbærum er tengjast fræðigreininni komast mun fyrr til skila en hjá þeim sem lært hafa á hefðbundinn hátt. Nám af þessu tagi gerir meiri kröfur til nemendanna en hefðbundið nám og er samfelldara sjálfsnám staðreynd hjá þeim nemendum er taka þátt í vandamiðuðu námi. Þeir sem til þekkja segja að námið verði léttara í ljósi þeirra hagnýtu tengsla er felast í lausn vandamálanna. Að auki er því haldið fram að kennslan verði meira lifandi og líkari þeim starfsvettvangi sem nemendurnir eiga eftir að kynnast síðar sem læknar. Það er ólíkt þeirri kennslu sem boðið er upp á í dag, þar sem fyrstu þremur árunum er varið í kennslu í grunnvísindum, oftast án tengsla við framtíðarstarfsvettvang."

'Learning to learn'
Hvað er ég að fara að gera?
Hvernig ætla ég að fara að því?
Tókst mér að gera það sem ég ætlaði mér?

 

Klukkan
Dagsetning
21. nóvember 2014
Leitarbox

Gamalt blogg
Heimsóknir
Í dag:  14  Alls: 15614